Ný krabbameinslyf

Því fylgir alltaf nokkur spenna þegar fréttir berast af nýjum möguleikum í meðferð krabbameina. Sú sem hér er lýst gefur vissulega tilefni til að vona að hér kunni að leynast möguleiki til þróunar nýrra lyfja. Smíði og hönnun slíkra lyfja mun ef vel gengur taka einhver ár og munu síðan líða fleiri ár þar til dýratilraunir og síðar klínískar rannsóknir á mönnum leyfa að viðkomandi lyf verði skráð og sett á markað.

Mér er það minnisstætt að árið 2000 höfðu menn einu sinni sem oftar leyst krabbameinsgátuna, og fólst lausnin í því að gefa sjúklingum æðahamlandi lyf, - endostatin og angiostatin. Lyfin lofuðu mjög góðu eftir tilraunir í músum og nú var komið að því að reyna þau í klínískum fasa 1 rannsóknum í mönnum. Ég var um þetta leyti á síðasta ári í sérnámi mínu í krabbameinslækningum við háskólann í Madison, Wisconsin, og við höfðum fengið leyfi til að vera eitt af tveimur eða þremur krabbameinscentrum í Bandaríkjunum sem fengu að setja sjúklinga á endostatin. Vonir voru miklar og mikil ásókn sjúklinga í að fá að taka þátt í rannsókninni og reyna hið nýja lyf. Við byrjuðum rólega en jukum skammtana smátt og smátt til að fylgjast með hugsanlegum aukaverkunum. Til að gera langa sögu stutta svöruðu engir sjúklingar lyfinu. Vonbrigðin voru mikil. Enn og aftur kom í ljós að menn eru ekki mýs. Gamansamir sjúklingar hönnuðu í kjölfarið barmmerki og báru sem á stóð: "If I were a mouse, I would be cured".

Til að enda þetta á jákvæðari nótum er ljóst að framfarir í krabbameinslækningum eru að jafnaði hægar en stöðugar. Okkur þokar smátt og smátt áleiðis og öðru hvoru dettum við í lukkupottinn og fram koma lyf sem gjörbreyta horfum sjúklinga. Í því sambandi má benda á lyf eins og imatinib sem notað er í meðferð ákveðinna tegunda hvítblæðis og smágirnisæxla eða trastuzumab sem notað er í sumum afbrigðum brjóstakrabbameina.


mbl.is Merkileg uppgötvun í krabbameinsrannsóknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband